10.10.2007 | 12:03
Til Døden os Skiller
Jæja þá skellti ég mér á mynd hérna í Danmörku. Ég hafði ekki séð neinn trailer, skjáskot eða neitt um söguþráð myndarinnar. Mætti bara í bíóið og keypti mér miða á eitthvað danskt.
Myndin fjallar um mann sem vinnur í kaffiteríu á ferju á milli Svíþjóðar og Danmerkur. Hann er ekkert sérstaklega hamingjusamur og vill helst ekkert fara heim. Hann hengur í Óperunni eins lengi og hann getur á kvöldin. Ástæðan fyrir vanlíðan hans er að konan hans er heldur ekkert sérstaklega hamingjusöm og lætur það bitna á honum með því að lemja hann. ---- Hann er laminn eiginmaður
Hann er ætíð að mæta í vinnuna með ný og ný sár svo að á endanum fattar skipstjórinn hvað er í gangi og lætur hann taka þátt í námskeiði fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis nema hvað að hann lendir á námskeiði fyrir gerendur
Í heildina var myndin allt í lagi, leikarar komu sínu ágætlega fram, sviðsmynd vel gerð en sagan var bara úti að fljúga ! Það vantaði einhverja línu sem sagan átti að fylgja en í staðinn hékk hún bara í lausu lofti og vissi ekkert hvert hún átti að fara. Hún byrjaði ágætlega en var svo bara föst á sama stað 2/3 af myndinni, það gerðist í raun ekkert.
Hins vegar var hinn góði danski húmor til staðar nema bara allt of lítið af honum.... kannski var ég hluti af vandamálinu því ég skildi ekki allt og allt í einu voru allir hlæjandi í salnum nema ég því ekki er dönsk mynd textuð í Danmörku.
Ég held ég þurfi að flytjast aftur hingað í einhvern tíman til að ná dönskunni aftur
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 10:16
Knocked up
Hér er á ferðinni mynd um unga frama konu sem er komin frekar langt hvað varðar frama sinn og til að fagna stöðuhækun fer hún á djammið. Þar hittir hún frekar lúðalegan gaur sem er andstæða hennar, ekki í almennilegri vinnu, ekki menntaður og reykir gras allan daginn. Að sjálfsögðu lenda þau saman um nóttina. Titill myndarinnar segir jú restina, svona næstum. Hún verður ólétt og voru þau að sjálfsögðu hvorugt búið að plana að eignast barn á næstunni.
Gaman var að fylgjast með hvernig persónurnar brugðust við því hvorugt þeirra vissi í raun hvað ætti að gera. Miklar tilfinningar voru í spilinu eins og gefur að silja og var myndin frekar raunveruleg í flesta staði. Handritshöfundurinn hlýtur að hafa gengið í gegnum þetta sjálfur eða þekkt einhvern náin sér sem hefur gengið í gegnum þetta ferli.
Voru hin ýmsu viðbrögði þeirra frekar ýkt á köflum og byggðust mörg atriði nær eingöngu upp á þessum ýktu viðbrögðum sem var eitt af því fáa sem sem mér fannst að þessari mynd.
Myndin var þó hin ágætasta skemmtun og ætti í raun að vera sýnd sem kynfræðsla fyrir þá krakka sem eru ekki andlega undirbúin undir það að eignast sjálf börn því þetta er ekkert grín.
9.10.2007 | 10:03
Escape from Alcatraz
Ég hafði ekki séð þessa mynd áður og var í raun ekkert búinn að plana að horfa á hana í bráð. Ef máltækið "skemmtilegir hlutir gerast óvænt" er ekki til ætti einhver að búa það til. Ég var bara flakkandi á TV2 hérna í Danmörku og lennti á henni.
Hér er Clint Eastwood kannski ekki í S-inu sínu en þó nokuð nálægt því. Hann leikur hér fanga sem er sendur í hið alræmda fangelsi Alcatraz á eyju rétt fyrir utan San Fransisco. Ekki líður á löngu áður en hann og nokkrir félagar hans leggja á ráðin um að flýja úr fangelsinu. Skemmtilegt var að fylgjast með hvernig þeir félagarnir notuðu hin ýmsu ráð til að brjóta sér leið út. Hugmyndaflugið í botni.
Skemmtilegast finnst mér þó hvernig hann Eastwood er ætíð jafn harður í öllum hans myndum. Hann leikur alltaf sama harðjaxlinn, sama á hvaða aldri hann er, bara í mismunandi aðstæðum og fötum. Ég er ekki að segja að það sé eitthvað slæmt, þvert á móti, því þá get ég ætíð stólað á hann. Þetta er eins og með Jackie Chan nema á betri hátt. Jackie leikur ætíð sama ofurgóða KungFu karlinn sem er alltaf jafn hissa yfir öllu sem skeður í kringum hann.
9.10.2007 | 09:50
Gamlar myndir sem eldast vel
Hvað er það sem lætur myndir endast vel ? Fjölda margar myndir eru ótrúlega flottar og skemmtilegar þegar þær koma út en svo 5-10 árum seinna eru þær orðnar kjánalegar. Svo eru aðrar myndir sem eru alveg jafn góðar 10 árum, jafnvel 50 árum seinna eins og þær voru þegar þær komu út fyrst.
Twister er að mínu mati ein af þessum myndum sem eldist vel. Þetta er einungis í annað skiptið sem ég sé hana og var hið fyrra rétt eftir að hún kom út á spólu árið 1996, eða 11 árum síðan. Í minningunni var þetta ævintýralega flott og skemmtileg mynd.... en hvað nú? Hún er alveg jafn góð. Auðvitað er tískan búin að breytast alveg helling en myndin sjálf er virkilega góð. Söguþráðurinn er mjög þéttur, leikararnir góðir og já... meira að segja tæknibrellurnar eru flottar. Það sem Twister ætlaði sér að gera kom vel í gegn.
Ef að myndir hafa góða leikara, tæknibrellur sem eru bara aukatariðið og fara ekki fram úr sér og hellst af öllu gott handrit þá er það nokkuð öruggt að myndin kom rétt út.... nema náttúrulega að leikstjórinn sé á sýru
En hvað með þær myndir sem eldast illa? Ég er t.d. mjög hræddur um að eftir 5 ár verði Matrix II og III alveg hrikalega hallærislegar meðan nr. I eigi eftir að eldast vel. Hví? Jú í númer I var sagan og persónurnar frekar mikið í fyrirrúmi og tæknibrelluranar ekki orðnar jafn fáránlega mikill hluti og í II og III. Leikstjórarnir einfaldlega misstu sig með í tæknibrellunum í seinni tveimur myndunum. Ég er t.d. einn af þeim sem
fannast seinni myndirnar vera temmilega góðar, minnihluta hópur miðaða við það fólk sem ég þekki, en ég held ég eigi ekkert að vera að grafa upp gamla drauga eftir nokkur ár. Sumt er best geymt grafið í DVD staflanum
2.10.2007 | 13:47
Shotgun Stories
Hér er á ferðinni ein mesta hatursmynd sem ég hef nokkurn tíman séð og allt þetta hatur er að því er virðist af ástæðulausu. Myndin fjallar um 2 hópa af hálfbræðrum í litlum bæ í Arkansas í suðurríkjum bandaríkjanna. Eldri hópurinn hefur það frekar skítt, ólust upp hjá móður sinni því faðirinn hljópst á brott, eignaðist aðra fjölskyldu, hætti að drekka og varð kristinn. Byggist það heil mikið hatur upp á milli hópanna tveggja að því er virðist vegna haturs á föðurnum sem fór yfir og færist hatrið yfir á hina bræðurna sem hata svo eldri bræðurna á móti....... frekar flókið en samt ekki (lesið þetta bara 3var sinnum yfir og þá kemur þetta
)
Myndin er ágætlega gerð en frekar hæg því handritshöfundur gefur sér full langan tíma í að segja frá og sýna aðstöðu og tilfinningum eldri bræðranna. Hins vegar held ég að leikstjórinn hefði ekki getað komist betur frá myndinni handritslega séð því í raun gerðist ekki það mikið. Hefnd hér, hefnd þar...
Leikarar skiluðu verkum sýnum ákaflega vel frá sér og voru mjög trúverðugir sem hinir "gleymdu synir" en yngri bræðurnir voru aðeins á reiki.
1.10.2007 | 23:14
Þið Lifendur
Sjaldan hef ég orðið jafn gáttaður á mynd og þessari. Ég hafði raun ekki hugmynd um hvað ég væri að fara út í. Siggi kvikmyndafræðikennari hafði bara sagt að fyrri mynd leikstjórans hafi verið hálfgert rush því hversu sýrð en flott hún var.
Mynd segir frá nokkrum manneskjum einhversstaðar í sænskri borg. Þar má nefna nokkrum meðlimum lúðrasveitar, þunglyndri konu, ástfanginni stelpu svo nokkur dæmi séu nefnd. Skiptst er á að fylgjast með hverri manneskju og koma þær oft bara einu sinni fram þó flestar komi nokkrum sinnum.
Hvert skot var yfirleitt frekar langt og var myndavélin oftast kyrr allan tíman. Voru þetta samtöl milli tveggja persóna. Lék leikstjórinn sér þónokkuð að því að láta bakgrunninn leika stórt hlutverk og var hann jafnvel aðallhlutverkið. Annað sem var merkilegt var hvernig persónurnar tóku allt í einu undir lagið sem hafði verið í spilun í þó nokkurn tíma, t.d. hjá þunglyndu konunni. Tónlistin var frekar stór hluti myndarinnar
Þið lifendur eða Du Levande eins og hún heitir á frummálinu er alveg æðisleg mynd sem er á allt öðrum grösum en allt annað sem ég hef séð og hún gerði það bara mjög vel.
"Með alla þessa eymd í heiminum, hvernig gætum við komist framhjá því að verða full?"
1.10.2007 | 22:46
The General
Hér er um að ræða alveg æðislega mynd. Myndin varð á þessu ári 80 ára gömul og er engu slakari í dag en þá. Hún er hvorki í lit né með tali en samt nær hann Buster Keaton að skila sínu alveg framúrskarandi vel.
Buster Keaton leikur lestarstjóran Johnny Gray í þrælastríðinu og er hann yfir sig ástfanginn af stelpunni Annabelle Lee og eru þau bæði úr suðrinu. Þegar stríðið skellur á reynir Buster að skrá sig í herinn til að ganga í augun á sinni heitt elskuðu en er neitað því yfirvöld þykja hann mikilvægari sem lestarstjóri en hermaður. Vart þarf að spyrja sig að því að Annabelle verður mjög vonsvikin og telur hann heigul. Dag einn lendir Annabelle þó í því að vera rænt af Norðanmönnum. Buster lætur ekki segja sér tvisvar áður en hann æðir á eftir þeim.
Myndin gerist næstum öll á tveimur lestum og eru sum atriðin virkilega minnistæð. Frekar mikið af áhættuatriðum voru í myndinni og voru þau að sjálfsögðu öll af gamla skólanum og lék Buster þau sjálfur. Myndin var öll hin spaugilegasta en merkilegasta fannst mér þó að Norðanmennirnir voru í raun vondukallarnir og er það eitthvað sem ég hef ekki kynnst áður.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2007 | 20:32
Year of the Dog
Hér er um að ræða forvitnilega mynd um konu sem er óðfluga að nálgast fertugt, ógift og ástin í lífi hennar er litli Beagle hundurinn hennar. Eitt kveldið drepst hundurinn úr eitrun og þarf vart að segja heimur hennar hrynur
Við þetta koma tveir menn inn í líf hennar, hún gerist grænmetisæta og fer hún að endurskipuleggja líf sitt og finna tilgang með því.... Hún fer að bjarga dýrum.
Í stað þess að fara hinn venjulega veg rómantíkur og ásta þá skellir myndin sér í aðra strauma. Karlmennirnir eru í raun ekki það stór hluti af sögunni heldur er þetta í raun saga manneskju sem er að finna tilgang með lífi sínu.
Leikarar fara misvel með hlutverk sín, aðalleikonan (Molly Shannon) er hér best og leikur hina fertugu Peggy einkar vel og svo er John C. Reily sem Al góður. Á hinum endanum er Josh Pais sem yfirmaðurinn Robin alveg fáránlegur. Ég veit ekki alveg hvernig hann fór að þessu en ég var alls ekki að kaupa þennan karakter. Það voru fleiri svona "böggandi" karakterar en þó minna áberandi
Myndatakan var nokkuð skemmtileg á köflum þar sem Peggy sat og var í raun bara að hlusta á viðmælendur sína. Horfði hún þá beint á þá og þeir á hana og var myndavélin akkurat í sjónlínu og fékk maður þá betur á tilfinninguna hvernig henni leið.
Þetta var í heildina ágætis mynd en í raun ekkert meistaraverk
Kvikmyndir | Breytt 1.10.2007 kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2007 | 14:07
The Crying Game
Hér erum við að tala um frekar ferska mynd. Sagan er í stuttu máli um liðsmann IRA, Fergus (Stephen Rea)sem tekur þátt í mannráni á breskum hermanni (Forrest Withaker). Vingast aðal"hetjan" við þann rænda og verða í raun félagar. Endar þetta frekar illa með því að hermaðurinn deyr og fer þá hetjan okkar beinustu leið til London til að hitta kærustu hermannsins.
Fer málið allt að verða mun flóknara er Fergus fer að falla fyrir kærustunni, Dil.
Hins vegar hafa gömlu félagar Fergus úr IRA ekkert gleymt honum þó hann vilji gleyma þeim
Myndin kom virkilega á óvart. Forvitnilegt var að fylgjast með hvernig persónur Stephens og Withakers þróuðust þó þeir komu úr allt öðrum áttum. Leikararnir skiluðu sínu óvenju vel frá sér og voru mjög trúverðugir, einkum persónan Dil.
18.9.2007 | 13:54
Veðramót
Hvað skal segja?
Veðramót varð nákvæmlega eins og ég hélt að hún yrði.
1. Ég bjóst við mynd sem tæki á mjög alvarlegu málefni, misnotkun barna, og fengjum við að fylgjast með hversu brengluð blessuð börnin verða af þeim sjúka heimi sem foreldrar þeirra neyddu þau í. Úr þessu varð. Krakkarnir voru mis-brengluð allt frá miklu þunglyndi til dýraeðlis þar sem ekki er hægt að sjá fyrir neitt sem börnin gera.
2. Ég bjóst við að myndin yrði fallega útlítandi og myndi "fanga" fyrri hluta áttunda áratugarins vel. Þetta tókst mæta vel. Klæðaburður persónanna var einka í anda Hippanna sem enn héldu uppi sínum hugmyndum um að bæta heiminn en áttuðu sig ekki á að þau skipta í raun engu máli því þau eru einungis peð.
3. Ég bjóst við að myndin myndi ekki falla almennilega inn á mitt áhugasvið. Það gerðist. Sagan er mjög þunglynd og náðist að fanga þá krísu sem þessir aumingja krakkar lenda í sem enginn venjulegur maður getur almennilega skilið sama hversu mikið sá hinn sami reynir.
Eitt verð ég þó að gefa myndinni. Ég var eiginlega búinn að dæma myndina fyrir fram og hélst það út í gegn. Ég er ekki að segja að myndin sé slæm. Langt því frá, hún er mjög vel gerð og leikur flestra í góðum gír. Sama má segja um handritið sem er gott í flesta staði. Málið er.... málið er........ ég fíla bara ekki svona kvikmyndir..... þetta er eitthvað fyrir "eldra" fólk sem er nær þessum tíma eða hafa upplifað eða þekkt einhvern sem hafa lennt í einhverju svipuðu.
Niðurstaða: góð mynd fyrir þá sem vilja há-alvarlega mynd á sunnudagskveldi og jafnvel fella nokkur tár.